Bestu stellingarnar í rúminu

Bestu stellingarnar í rúminu

Góð líkamsstaða er fjárfesting til framtíðar

Líkamsstaða okkar skiptir verulegu máli. Ef við venjum okkur við góðar líkamsstöður þá getur stoðkerfi líkamans enst okkur lengur án verkja og dregið úr líkum á við hljótum m.a. slitgigt og/eða þurfum að fara t.d. í liðskipti þegar við eldumst. Góð líkamsstaða bætir m.a. þol þar sem lungnastarfsemi og almenn starfsemi innri líffæra breytist til batnaðar. Góð líkamsstaða eflir jafnvægi, sjálfstraust og ímynd okkar út á við. Auk þess dregur góð líkamsstaða úr líkum á meiðslum og jafnvel álagsmeiðslum íþróttamanna.

Í hvaða stellingum erum við meirihluta sólahringsins?

Líkamsstaðan skiptir sérstaklega máli í þeim stellingum sem við erum í yfir lengri tíma dagsins, því er gjarnan mikil áhersla lögð á góða standandi líkamstöðu og góðar setstellingar við skrifborð. Minna heyrist þó af nauðsyn góðrar líkamsstöðu í svefni þrátt fyrir að við verjum stórum hluta sólahringsins einmitt liggjandi í rúminu. Þegar fólk glímir við stoðkerfisverki fara svefnstellingar að skipta miklu máli og er misjafnt hvaða stelling er ákjósanlegust við mismunandi vandamálum.

Magalega
Ekki ákjósanleg svefnstelling fyrir þá sem glíma við hálsvandamál, sérstaklega þar sem tilhneigingin er sú að höfuðið reigist aftur eða að höfðinu er snúið til hliðar en slíkar stellingar geta myndað óæskilegan þrýsting á hálsliðina. Ef legið er á maganum getur reynst bakinu gott að hafa kodda undir neðri hluta kviðsins og mjaðmagrindarsvæði og mjög þunnan eða jafnvel engan kodda undir höfði. Magalegan er síst allra svefnstellinga með tilliti til álags á stoðkerfið.

Baklega

Í þessari stellingu er líklegast að náttúrulegar sveigjur hryggsins haldi sér og minnsti þrýstingurinn sé á höfuð, háls og hryggsúluna. Einnig er þetta besta stellingin fyrir einstaklinga sem þjást af bakflæði. Hins vegar er þetta ekki góð stelling fyrir einstaklinga sem þjást af kæfisvefni og að sofa á bakinu eykur líkur á hrotum. Sumir sem þjást af mjóbaksverkjum eiga erfitt með að liggja á bakinu. Í baklegu er heldur enginn þrýstingur á andlitið en rannsóknir gefa til kynna að þrýstingur á andlitið í svefni geti flýtt fyrir hrukkumyndun.

Hliðarlega

Ekki ákjósanleg stelling fyrir þá sem glíma við axlarvandamál þar sem það getur myndast mikill þrýstingur á öxlina sem legið er á. Líkt og baklegan er þetta góð staða fyrir þá sem þjást af bakflæði, auk þess er hún góð fyrir þá sem eru með kæfisvefn og þessi stelling hjálpar við að draga úr verkjum frá hálsi og mjóbaki. Þeir sem sofa í hliðarlegu ættu að hafa góðan kodda á milli fótleggja til að draga úr óþarfa spennu og togi á mjaðmagrind og mjóbak og höfuðkoddinn á að veita góðan stuðning sérstaklega við hálsgeilina, þ.e. svæðið milli axlar og kjálka til að styðja við náttúrulega sveigju hálsins. Hliðarlega er besta svefnstellingin t.a.m. fyrir óléttar konur eða kviðmikið fólk þar sem þrýstingur af kviðnum getur valdið innri líffærum óþægindum sérstaklega við baklegu. Hliðarlegan er ýmist með fætur beina eða bogna (fósturstellingin).

Nauðsynlegt er að vanda val á dýnu og kodda og frekar ætti að spara í innkaupum á rúmfatnaði og í raun öllu öðru en dýnum og koddum þar sem fáir hlutir eru jafnmikið nýttir eða hafa jafnmikil áhrif á stoðkerfið okkar yfir ævina og rúmið okkar.