Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn

Í dag 10. október er alþjóða geðheilbrigðisdagurinn  (world mental health day) en með honum er ætlað að vekja athygli á málefnum andlegrar heilsu og alvarlegum áhrifum geðsjúkdóma á líf fólks um allan heim auk þess að vinna markvisst gegn fordómum og þöggun gegn geðsjúkdómum. 

Á tímum heimsfaraldurs 

Ótti, áhyggjur og streita eru eðlileg viðbrögð á tímum þegar við stöndum frammi fyrir mikilli óvissu og óstöðugleika. Það er því eðlilegt og skiljanlegt að fólk upplifi hræðslu í tengslum við COVID-19 faraldurinn. 

Samhliða óttanum að smitast af veirunni verða miklar breytingar á okkar daglega lífi um leið og ferðafrelsi okkar er takmarkað í viðleitninni að hægja á útbreiðslu veirunnar. Við stöndum frammi fyrir nýjum veruleika þegar við m.a. störfum að heiman, glímum við tímabundið atvinnuleysi, sinnum fjarnámi barna og erum í skertum félagslegum tengslum við fjölskyldumeðlimi, vini og starfsfélaga en þá er afar mikilvægt að huga að andlegri og líkamlegri heilsu en þessir tveir þættir eru tengdir órjúfanlegum böndum. 

Andlega heilsueflandi þættir

Einfaldar almennar leiðir til að efla andlega heilsu geta verið þættir á borð við:

  • Reglulegan og góðan nætursvefn
  • Regluleg hreyfing
  • Hollt og gott mataræði
  • Njóta náttúrunnar og útivistar (veitir líkamanum D- vítamín og áreynslu)
  • Takmarka notkun ávanabindandi efna (tóbak, áfengi)
  • Gerðu góðverk, það að gera góðverk dregur úr streitu með því að hamla losun á streituboðefninu kortisóli og hefur verið sýnt fram á að gera góðverk geti aukið langlífi með því að draga úr líkum á alvarlegum sjúkdómum. 
  • Taktu lýsi, Omega 3 fitusýrur eru taldar hafa jákvæð áhrif á andlega heilsu
  • Settu þér raunhæf markmið, að strengja sér of há markmið getur brotið niður sjálfstraust til lengri tíma. Skiptu markmiðum þínum niður í smærri þrep til að ná settu marki. 
  • Taktu þátt í félagslegu starfi eða sjálfboðastörfum en það að tilheyra (sense of belonging) er talin ein af grunnþörfum manneskjunnar og eykur áhugahvöt og hamingju.
  • Brostu, alþjóðlega tjáningarform hamingjunnar veldur losun boðefna á borð við dópamín, serótónín og endorfína í heilanum sem hafa jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Gervibros eru talin gefa sömu áhrif og einlæg bros, þó ekki í sama mæli. Það væri því góð viðbót við líkamsræktarrútínuna að enda á 10 brosum 🙂

Heilbrigð sál í hraustum líkama

Rannsóknir hafa sýnt að andleg vanlíðan á borð við þunglyndi og kvíða getur haft áhrif á verkjaupplifun einstaklinga. Þannig getur andleg vanlíðan haft neikvæð áhrif á sársaukaþol og sársaukaþröskuld og aukið þannig á verkjaupplifunina. Að sama skapi geta langvinnir verkir verið kvíðavaldandi og jafnvel valdið þunglyndi en þessir tveir líkamlegu þættir eru afar samofnir og er sífellt verið að rannsaka innbyrðis áhrif þeirra. Sömu undirstöðuþættir geta þó haft jákvæð áhrif á hvort tveggja þ.e. andlega líðan og verki, það eru þættir á borð við góðan svefn, hreyfingu og heilnæmt mataræði. 

Við glímum öll við mismunandi litróf tilfinninga á hverjum degi en við erum misjafnlega í stakk búin til að takast á við þær. Langvarandi þreyta, verkir, fjárhagsvandi, áfengisneysla eða aðrir utanaðkomandi þættir geta truflað getu okkar til að takast á við tilfinningar okkar og útsett okkur fyrir því að þróa með okkur andlega sjúkdóma. Við getum gripið sjálf til ýmissa almennra bjargráða til að draga úr vægari einkennum andlegrar vanlíðunar en mikilvægt er að grípa til frekari aðgerða verði einkennin alvarleg. 

Hafir þú áhyggjur af andlegri heilsu þinni hvet ég þig eindregið til að leita þér aðstoðar fagaðila á heilsugæslu eða sálfræðings. Hjálparsími Rauða Krossins er 1717 en þeir bjóða einnig upp á netspjall og Píeta samtökin veita einnig þjónustu til þeirra sem eru í alvarlegum andlegum vanda. 

Ég óska ykkur góðrar helgi og hvet ykkur til að huga að andlegri heilsu ykkar og þeirra sem standa ykkur næst. 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari

(upplýsingar fengnar m.a. af vef alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO)