Hagnýtt og heilsueflandi starf
Þekking á mannslíkamanum og aðferðum til að auka endingartíma hans og bæta virkni hans ætti að vera hluti af grunnnámi allra einstaklinga. Þekking á eigin líkama eflir líkamsvitund þína og sjálfstraust. Sjúkraþjálfarar eru almennt heilsuhraust fólk en það er engin tilviljun. Starfið er líkamlega krefjandi og námið gerir þér m.a. grein fyrir endanleika líkamans en jafnframt möguleikum hans og nauðsyn þess að hugsa vel um hann til að hann endist þér sem allra best og allra lengst.
Fræðsla og ráðgjöf lykilþáttur
Fræðsla til skjólstæðinga og ráðgjöf til fyrirtækja og hópa eru mikilvægur þáttur í starfi sjúkraþjálfara. Sjúkraþjálfarar hafa sérfræðiþekkingu á líkamanum í heild sinni og þekkja leiðir til bestunar hreyfiferla og notkunarmöguleika líkamans ásamt því að vera sérfræðingar í endurhæfingu og endurheimt getu, krafta og lífsgæða.
Atvinnuhorfur góðar
Biðlistar í sjúkraþjálfun eru víða langir og fjölmargar atvinnuauglýsingar sjást í hverri viku þar sem verið er að auglýsa eftir sjúkraþjálfurum til starfa. Starfið er ólíklegt til að verða vélvætt og því er framtíðarstarfsöryggi mjög gott og tekjumöguleikar góðir.
Nærandi starf
Sjúkraþjálfarar aðstoða skjólstæðinga sína sem þjást af verkjum, truflunum á færni, og öðrum vandamálum frá stoðkerfi líkamans. Þegar árangur næst af meðferð skilar það ekki einungis skjólstæðingnum auknum lífsgæðum og samfélaginu auknum verðmætum heldur eykur það vellíðan, sjálfstraust og starfsánægju sjúkraþjálfarans. Að gefa af sér og hjálpa öðrum bætir andlega líðan og vinnur þannig gegn kulnun í starfi.
Fjölbreytt starfsumhverfi
Störf sjúkraþjálfara eru virkilega fjölbreytt. Sjúkraþjálfarar starfa með fjölbreyttum hóp skjólstæðinga, frá því að vera nokkurra vikna ungabörn í fólk á tíræðisaldri, atvinnuíþróttamenn, fólk sem glímir við lamanir, fatlanir eða er í endurhæfingu í kjölfar alvarlegra slysa. Sjúkraþjálfarar starfa á einkastofum, heilbrigðisstofnunum, með íþróttaliðum, á heilsugæslu, vinna við ráðgjöf t.d. hjá stoðtækjaframleiðendum, kennslu, stjórnun heilbrigðisstofnana, vinna við vöruþróun t.d. hjá húsgagnaframleiðendum og verslunum sem sérhæfa sig í sölu á hjálpartækjum og rúmum og svo mætti lengi áfram telja. Nokkrir íslenskir sjúkraþjálfarar hafa einnig kosið að nýta menntun sína eftir óhefðbundnari leiðum en þannig starfaði Siv Friðleifsdóttir sjúkraþjálfari sem heilbrigðisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn, sjúkraþjálfarinn Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir er aðstoðardagskrárstjóri RÚV og sjúkraþjálfarinn Matthildur Ásmundardóttir er bæjarstjóri Hornafjarðar.
Uppbygging námsins
Námið sjálft er gjaldfrjálst, einungis þarf að greiða skrásetningargjald við Háskóla Íslands en víða erlendis þarf að greiða há skólagjöld fyrir nám í sjúkraþjálfun. Stúdentspróf er inntökuskilyrði og þreyta þarf inntökupróf. Námið sem kennt er innan læknadeildar Háskóla Íslands skiptist í 3ja ára BS-nám í sjúkraþjálfunarfræði og 2ja ára MS-nám í sjúkraþjálfun. Við útskrift hafa sjúkraþjálfarar víðtæka þekkingu, leikni og hæfni á sviði sjúkraþjálfunar og geta sótt um starfsleyfi sem sjúkraþjálfarar til Landlæknis.
Umsóknarfrestur í inntökupróf fyrir nám í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands er til 20. maí næstkomandi.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari
Fulltrúi í fagnefnd Félags sjúkraþjálfara