Photo by: Thomas Hansen
Nú þegar lokakvöld Eurovision nálgast er við hæfi að hvetja fólk til að taka duglega undir með sínu uppáhaldslagi en söngur hefur sannarlega margvísleg jákvæð áhrif á líkamann.
Líkamleg áhrif
Að syngja bætir ónæmiskerfið en rannsóknir hafa sýnt að mótefnið immunoglobulin A mælist hærra í kjölfar söngæfinga og mun hærra en bara við að hlusta á tónlist.
Fyrir fólk sem á erfitt með að stunda hefðbundna líkamsrækt af einhverjum sökum getur söngþjálfun verið ákveðið form líkamlegrar þjálfunar. Áreynsla á lungun og öndunarvöðva er ákveðin styrktarþjálfun fyrir þindina og millirifjavöðva og bætir almennt blóðflæði um líkamann. Sumir vilja einnig meina að söngþjálfun geti þannig bætt þol og almennt úthald. Að sama skapi eru uppi vangaveltur um hvort söngur styrki háls- og munnholsvöðva og geti þannig hjálpað við að draga úr neikvæðum áhrifum á líkamann frá kæfisvefni og hrotum.
Söngurinn lengir m.a. með ofantöldum þáttum lífið og getur hjálpað til við að bæta líkamsstöðuna þína en við söng þarf að hafa góða líkamsstöðu og líkamsvitund til að ná hámarksárangri.
Andleg áhrif
Söngurinn eykur athygli, bætir minni og einbeitingu en með auknu blóðflæði til heilans sem verður við söng fær heilinn aukið magn súrefnis og hefur söngþjálfun reynst vel hjá fólki með minnisglöp.
Þekkt er að söngur dregur úr streitu en söngur dregur úr vöðvaspennu og dregur úr losun streituhormónsins kortisól. Söngur er þannig hálfgert náttúrulegt ,,þunglyndislyf” en söngur losar um endorfín, boðefni í heilanum sem veldur gleði. Söngurinn getur einnig einfaldlega dreift huganum frá amstri og vandamálum dagsins og bætt þannig líðan.
Félagsleg áhrif
Að syngja í kór eða með félögum getur bætt félagslíf þitt. Tengslin sem þú myndar með söng í félagsskap við aðra eru djúp og ákveðin nánd er fólgin í þeim.
Söngur bætir sjálfstraust, en að syngja vel og fá hól frá vinum og kunningjum getur hjálpað til við að draga úr frammistöðukvíða og bætt sjálfstraust. Þannig getur það að koma fram í söng hjálpað til við framkomu af öðru tagi, t.d. að flytja ræður eða fyrirlestra.
Hvort sem þú vilt syngja ein/n í sturtunni, í brekkunni á þjóðhátíð eða lætur verða af því að ganga í næsta kór til að bæta lífsgæðin þín þá hvetjum við þig eindregið til að hætta að halda aftur af þér og syngja af lífs og sálarkröftum enda er það vísindalega sannað að það bæti heilsuna þína.