Osgood Schlatter

Osgood Schlatter

Osgood Schlatter eru álagsmeiðsli sem lýsa sér sem verkur og kúlumyndun við vöðvafestu framanlærisvöðvans (m. quadriceps femoris) undir hnéskelinni. Á vaxtarskeiði barna stækka beinin gjarnan mjög hratt en vöðvarnir stækka hægar og eiga erfitt með að halda í við vöxt beina. Í alvarlegustu tilfellum geta orðið afrifubrot, þar sem vöðvinn rífur hreinlega vöðvafestuna frá beininu.

Einkenni

Verkir við og/eftir æfingar eða aðra hreyfingu ofan og framanvert á leggnum rétt undir hnéskelinni. Ef ástand er viðvarandi í lengri tíma getur beinflöturinn undir hnéskelinni (sköflungshrjónan) stækkað og orðið áberandi hnúður. Við þreifingu geta komið óþægindi eða verkur á sköflungshrjónunni.

Áhættuhópar

Vandamálið er algengast hjá börnum og ungu fólki sem er að vaxa og stunda íþróttir og er algengara hjá drengjum en stúlkum. Í íþróttum þar sem eru mikil hlaup, hopp, stefnubreytingar og kröftug spörk (t.d. knattspyrnu, körfubolta, blaki) er tíðnin meiri. Skert hreyfigeta í neðri útlimum sem orsakast af stífum og stuttum lærvöðvum er algeng hjá einstaklingum sem þjást af þessum kvilla.

Vöðvinn verður sterkari en beinið

Algengast er að vandamálið komi í ljós þegar barnið tekur vaxtarkipp eða á aldrinum 9 – 16 ára en á þeim tíma eru vaxtarlínur viðkvæmar fyrir áreiti. Framanlærisvöðvarnir sem eru að styrkjast og toga í vöðvafestuna af slíkum krafti að beinhimnan undir hnéskelinni nálægt vaxtarlínunni gefur eftir og ofvöxtur myndast á beinfletinum.

Forvarnir

Góð upphitun, hreyfiteygjur, teygjur fyrir lærvöðva, liðleikaþjálfun ofl. Mikilvægt er að þjálfarar ungra barna sinni þessum þætti vel og passi upp á að álag verði ekki of mikið á unga leikmenn, nauðsynleg hvíld er ekki síður mikilvæg fyrir framfarir ungra leikmanna. Börn ættu að vinna fyrst og fremst með eigin líkamsþyngd, þ.e. ekki vera í þungum lyftingum og tryggja þarf fjölbreytta þjálfun til að koma í veg fyrir of einhæft álag á ákveðna líkamshluta.

Meðhöndlun

Teygjur á framanlærisvöðva, rúlla/nudda stífa framanlærisvöðva, bólgueyðandi meðferð hjá sjúkraþjálfara, teipingar, kæling, fræðsla og ráðgjöf, hvíld frá þjálfun eða breytt æfingaálag. Vandamálið gengur yfirleitt yfir en til lengri tíma geta verið óþægindi af beinútvextinum, en t.d. getur verið erfitt fyrir viðkomandi að krjúpa á hnjám og þarf meiri stuðning undir hnén, í sjaldgæfum tilfellum getur skurðaðgerðar verið þörf.