Kannt þú að hreyfa eyrun?
Ýmsir byggingareiginleikar mannslíkamans eru þróunararfleifð tegundar okkar og veita vísindamönnum rök m.a. fyrir þróunarkenningu Darwins. Þeirra á meðal eru hlutir á borð við rófubeinið, botnlangann, endajaxla og gæsahúð. Ein slík arfleifð er hæfileikinn að hreyfa eyrun. Ósjálfrátt viðbragð við hljóði og áreiti af ýmsu tagi veldur því að dýr t.d. á borð við ketti og hunda hreyfa eyrnablöðkuna, líkt og gervihnattamóttakara, til að varpa hljóðinu betur inn í hlustina m.a. til að verjast árásum eða til að staðsetja betur bráð sína. Í eyrnavöðvum okkar sem þjóna í dag litlum ef einhverjum tilgangi greinist virkni við t.d. hávær óvænt hljóð eða skyndilegar hreyfingar augnanna til hliðanna en vogararmur og styrkur eyrnavöðvanna er ekki nægur til að valda verulegum hreyfingum á eyrnablöðkunni sjálfri. Hinar eiginlegu hreyfingar á eyranu framkvæmum við aftur á móti með vöðvum sem festist annars vegar á höfuðkúpuna og hins vegar beint á húðina við eyrað og toga þannig í eyrnablöðkuna og breyta afstöðu eyrans á höfðinu. Talið er að um 20% mannkyns kunni að hreyfa eyrun sem er einmitt svipað hlutfall og býr yfir hnakkavöðvanum m. transversus nuchae sem hjálpar við að draga eyrnablöðkuna aftur. Þekkir þú einhvern sem kann að hreyfa eyrun?