Kyrrseta er lífshættuleg
Þegar þú situr eyðir þú minni orku en þegar þú stendur eða hreyfir þig. Rannsóknir hafa tengt kyrrsetu við heilsufarsvandamál á borð við:
- Offitu
- Stoðkerfisvandamál, sérstaklega tengd mjóbaki, hálsi og herðum.
- Áunna sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma
- Ákveðnar tegundir krabbameina, sérstaklega brjóstakrabbamein og ristilkrabbamein
- Andleg heilsuvandamál
- Ótímabær dauðsföll
Samkvæmt gögnum Eurostat frá 2017 framkvæma 39% alls vinnuafls í Evrópusambandinu vinnu sína sitjandi. Konur er þar í meirihluta.
Ef þú situr í meira en 8 klst. á dag og hreyfir þig ekki reglulega aukast dánarlíkur þínar svipað og vegna offitu eða reykinga. Dagleg hreyfing í 60-75 mínútur af meðalákefð vinnur hins vegar á móti neikvæðum áhrifum langvarandi setu.
Góð setstaða
Eftirfarandi þættir einkenna góða setstöðu við skrifborð:
- Fótleggir nái niður að gólfi – ef ekki þurfa þeir að hvíla á skemli
- Sitja á góðum 5 arma skrifborðsstól með hjólum
- Gott pláss fyrir framan fætur til að geta rétt af og til úr þeim
- Góður mjóbaksstuðningur frá stólbaki
- Stuðningur frá stólörmum undir olnbogum
- Þegar framhandleggir hvíla á skrifborði er 90° horn eða meira í olnboga
- Vinnugögn eru undir skjá en ekki til hliðar
- Skjár í þeirri hæð að ef þú horfir beint fram þá horfir þú rétt yfir efri brún skjásins, þú þarft að horfa aðeins niður á við til að horfa á miðju tölvuskjásins.
Ef þú situr mikið í vinnunni ættir þú að temja þér eftirfarandi:
- Standa reglulega upp, helst á 30 mínútna fresti
- Sitja að hámarki helming vinnudagsins
- Taka örfundi eða símafundi gangandi
- Þekkja góða setstöðu og tileinka þér hana reglulega yfir daginn en ekki halda henni þó stöðugri í langan tíma, engin ein stelling er góð lengi.
- Skiptu reglulega um stellingu við skrifborð, sitjandi, hálfsitjandi, standandi eða mismunandi setstellingar til að draga úr álagi á líkamann. Þannig er besta líkamsstaðan alltaf næsta líkamsstaðan
- Hreyfðu þig reglulega, 60-75 mínútna dagleg hreyfing af meðalákefð vinnur á móti neikvæðum áhrifum skrifborðsstarfa.
- Leggðu áherslu á að teygja vel mjaðmagrindarvöðva, sérstaklega náravöðva og aftanlærisvöðva sem styttast gjarnan hjá fólki sem situr mikið og styrktu djúpu kviðvöðvana, bakvöðvana og brjóstbakið.
- Óskaðu eftir eða fjárfestu í hæðarstillanlegu skrifborði til að geta staðið reglulega við vinnuna
- Taktu örpásur til að gera liðkandi æfingar og/eða teygjur, og taktu frekar stiga en lyftu
- Fjárfestu í góðum stillanlegum skrifborðsstól og mikilvægt er að þekkja stillingarmöguleika stólsins.
- Forvarnir á vinnustöðum er lykilatriði og skýr stefna vinnustaða hvað kyrrsetu varðar er mikilvæg.
Leiðarvísir líkamans býður upp á sérsniðna ráðgjöf, fyrirlestra og fræðslu til einstaklinga og vinnustaða m.a. fyrir vinnustaði þar sem stór hluti starfsmanna situr við skrifborð. Ekki hika við að hafa samband á leidarvisirlikamans@gmail.com fyrir frekari upplýsingar.
NB ef þú glímir við stoðkerfisvandamál er mikilvægt að leita þér ráðgjafar hjá fagaðila á næstu heilsugæslu. Því fyrr sem þú leitar þér aðstoðar við vandamáli því fyrr tekst þér að vinna bug á því.
Heimildir:
Skýrslan: Prolonged static sitting at work, EU-OSHA, 2021)
What are the risks of sitting too much? www.mayoclinic.org https://www.mayoclinic.org/healthy-lifestyle/adult-health/expert-answers/sitting/faq-20058005