Höfuðverkir eru eitt algengasta sjúkdómseinkennið sem hrjáir fólk og þar af leiðandi valda höfuðverkir gjarnan veikindafjarvistum og draga úr lífsgæðum fjölmargra.
Höfuðverkir eru meðal algengustu kvilla taugakerfisins og skiptast í mismunandi flokka. Þar á meðal eru mígreni, spennuhöfuðverkir og lyfjahöfuðverkir. Höfuðverkir geta einnig komið fram sem einkenni mismunandi vandamála á borð við háþrýsting, sjónskerðingu, sótthita ofl.
Spennuhöfuðverkir geta orsakast vegna aukinnar spennu í hálsvöðvum og herðavöðvum. Streita, slök líkamsstaða, slæm aðstaða við vinnu ofl. geta truflað öndun og valdið ofálagi á aðstoðaröndunarvöðva líkamans sem auka hættu á spennuhöfuðverkjum.
Við hefðbundna óþvingaða öndun eiga grunnöndunarvöðvarnir okkar, þindin (diaphragm) og millirifjavöðvarnir (intercostals) að sjá um öndunina okkar.
Við slíka öndun þenst kviðurinn út í innöndun (þindin) eða út til hliðanna (millirifjavöðvar). Við grunnöndun á ekki að koma mikil spenna í hálsvöðva né að verða mikil hreyfing á efsta hluta brjóstkassans. Við álagsöndun, t.d. eftir hlaup eða aðra áreynslu hvílum við gjarnan hendurnar á lærum til að ná andanum, með því erum við að gefa hálsvöðvunum okkar færi á að nýtast betur við öndunina og auka möguleika á frekari loftskiptum en við þyrftum við grunnöndun. Ef við förum að nota þessa aðstoðaröndunarvöðva í auknu magni við grunnöndun sem er ekki þeirra hlutverk eykst eðli málsins samkvæmt álag og spenna í hálsvöðvunum sem getur skapað höfuðverki, spennu og þreytu í hálsi og herðum. Það er því til mikils að vinna að skoða vel öndunina þína og reyna meðvitað að dýpka grunnöndun.
Hvað get ég gert sjálf/ur?
Ef þú þjáist reglulega af höfuðverk láttu þá athuga sjón og blóðþrýsting, drekktu vel af vatni, hreyfðu þig reglulega, fáðu ráðgjöf frá sjúkraþjálfara um góða líkamsstöðu, líkamsbeitingu og vinnuaðstöðu, dragðu úr streitu og álagi, sofðu hæfilega en bæði of lítill og of mikill svefn getur valdið höfuðverkjum, forðastu ofneyslu áfengis og tóbaks og temdu þér notkun sólgleraugna – í þau fáu skipti sem sólin lætur sjá sig . Fáðu ráðgjöf um og temdu þér þindar- og millirifjaöndun.
Hvenær er höfuðverkur hættulegur?
Ef þú upplifir skyndilegan sterkan höfuðverk, ógleði eða uppköst, breytta meðvitund, háan hita eða stífleika á aftanverðum hálsi, krampa, sjóntruflanir eða stjórnleysi eða tilfinningaleysi í höndum eða fótum skaltu tafarlaust leita læknishjálpar.