Af litlum neista verður oft mikið bál. Í gær fór fram árleg úthlutun úr Lýðheilsusjóði Landlæknisembættisins og hlaut Leiðarvísir Líkamans 750.000 króna styrk til forvarna stoðkerfisvandamála. Verkefnið felst í fræðslu til nemenda 10. bekkjar grunnskóla vítt og breitt um landið um líkamsvitund; æskilega líkamsstöðu, líkamsbeitingu og vinnustellingar ásamt einföldum ráðum við algengum stoðkerfiskvillum. Meginmarkmið verkefnisins er að draga úr tíðni stoðkerfisvandamála og auka lífsgæði almennings, sporna við vaxandi sjúkrakostnaði íslenska ríkisins og íslensks atvinnulífs ásamt því að efla almenna líkamsvitund Íslendinga. Aukin notkun snjalltækja og tölva, aukin kyrrseta og þyngdaraukning barna er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og krefst aðgerða. Að mínu mati er lokatakmarkið að slík fræðsla verði hluti af aðalnámskrá grunnskóla enda mjög hagnýt þekking sem kemur ekki bara nemandanum til góða heldur samfélaginu öllu. Ég er gífurlega þakklát fyrir rausnarlegan styrk Lýðheilsusjóðs og góða hvatningu til áframhaldandi þróunar á verkefninu.