Harðsperrur (DOMS – delayed onset muscle soreness) eru óþægindi sem flestir upplifa einhvern tímann á lífsleiðinni. Algengast er að fá harðsperrur við að taka upp nýja tegund þjálfunar, við breytingu á þjálfunaráætlun og við að auka t.d. þyngdir eða ákefð æfinga. Helsta ástæða harðsperra er almennt talin vera örskemmdir á vöðvaþráðum þeirra vöðvahópa sem mest er reynt á. Vöðvi er byggður upp úr miklum fjölda örfínna vöðvaþráða og saman mynda vöðvaþræðirnir vöðvaknippi sem mynda að lokum sjálfan vöðvann. Við kröftugar æfingar verða gjarnan skemmdir á vöðvaþráðunum, þeir slitna en við örskemmdirnar verður viðbragð í líkamanum sem hvetur til viðgerða á vöðvafrumunni og til uppbyggingar á nýjum vöðvapróteinum. Vöðvaþráðurinn grær svo gjarnan saman styttri en áður og getur þannig m.a. myndað meiri kraft. Við vöðvatognun verður einfaldlega stærri hluti vöðvans – heil vöðvaknippi sem rifna og valda miklum blæðingum og bólguviðbragði í vöðvanum. Hér áður fyrr var talað um að harðsperrur væru afleiðing uppsöfnunar á mjólkursýru en sú kenning hefur í dag verið afsönnuð.
Hvað eru harðsperrur?
- Post Author:Hildur Sólveig Sigurðardóttir
- Post published:04/09/2018
- Post Category:Fréttir